
Viltu koma í kórinn?
Karlakórinn Fóstbræður auglýsa reglulega eftir söngmönnum sem hafa áhuga á að ganga til liðs við kórinn á haustin. Æfingar eru að jafnaði á miðvikudagskvöldum auk fyrsta mánudagskvölds hvers mánaðar (5 æfingar á mánuði). Æskilegast er að nýjir félagar hafi einhverja reynslu af kórsöng en það er þó ekki skilyrði. Nýliðum er boðið upp á sérstaka raddþjálfun til að byrja með. Æfingar fara fram í Fóstbræðraheimilinu að Langholtsvegi 109 í húsnæði sem er sérsniðið að þörfum kórsins.
Áhugasömum er bent á að hafi samband við formann kórsins formadur@fostbraedur.is

Gamlir Fóstbræður
Gamlir Fóstbræður er kór eldri félaga, nokkurs konar lávarða- eða öldungadeild Fóstbræðra. Félagið var stofnað árið 1959 að frumkvæði Hreins Pálssonar sem þá hafði um nokkurt skeið haldið hugmynd að stofnun þess á lofti. Frá stofnun hafa Gamlir Fóstbræður verið sjálfstætt starfandi kór nátengdur Karlakórnum Fóstbræðrum. Kórinn er bæði vettvangur þeirra sem eru hættir að syngja með starfandi kórnum, svo og hinna sem kjósa af ýmsum ástæðum að taka sér frí í skemmri eða lengri tíma frá starfi með starfandi kórnum en vilja vera í tengslum við Fóstbræður án of mikilla skuldbindinga en einnig eru í kórnum nokkrir núverandi söngmenn í Fóstbræðrum. Allir kórfélagar hafa áratugalanga reynslu af kórsöng. Gamlir hafa allt frá stofnun staðið þétt að baki og við hlið starfandi kórsins og komið fram á öllum stærri hátíðarstundum Fóstbræðra með starfandi kórnum. Gamlir Fóstbræður er vel sönghæfur kór, sem hefur komið fram og sungið við hin margvíslegu tækifæri. Á undanförnum árum hefur kórinn sungið á hverju ári á öldrunar- og hjúkrunarheimilum á höfumborgarsvæðinu við frábærar undirtektir og einnig á samkomum hjá ýmsum félagasamtökum. Jón Þórarinsson tónskáld stjórnaði kórnum frá upphafi til ársins 1997 en þá tók Jónas Ingimundarson við. Frá haustinu 2009 tók Árni Harðarson við stjórninni og hefur hann stjórnað kórnum æ síðan. Árni stjórnar einnig Fóstbræðrum og styrkir það mjög samband kóranna. Gamlir Fóstbræður æfa að jafnaði aðra hverja viku og oftar þegar nauðsyn krefur. Þeir hafa haldið tónleika víðs vegar um landið á starfsferli sínum. Síðustu 10 árin hefur kórinn sungið á Suðurnesjum, Suðurlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi allt til Grímseyjar og Kópaskers auk þess að hafa farið í söngferðir erlendis. Má þar nefna ferð til Færeyja 2014 og á kóramót á Tenerife 2016 og annað kóramót í Barcelona 2017. Á þessu ári 2019 heldur kórinn upp á 60 ára afmæli sitt með afmælistónleikum 12. október í Digraneskirkju kl. 15:00 og síðan í nóvember næstkomandi heldur kórinn á vit nýrra ævintýra og fer í tónleikaferð til Japans þar sem hann mun koma fram bæði í Tokyo og Kyoto.

Steinunn Ragnarsdóttir
Steinunn Ragnarsdóttir lauk einleikaraprófi á píanó árið 1981 og meistaragráðu í píanóleik frá New England Conservatory of Music í Boston árið 1987. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir píanóleik sinn og verið virk í listalífi landsins um árabil bæði sem píanóleikari, stofnandi Reykholtshátíðar og tónlistarstjóri Hörpu frá árinu 2010. Hún hefur leikið á fjölmörgum geislaplötum þ.á. m. tvo píanókonserta ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands en hún hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitinni nokkrum sinnum og m.a. hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin. Árið 2015 tók hún við stöðu óperustjóra Íslensku óperunnar sem hún gegnir enn. Árið 2018 lauk Steinunn þriggja ára námi frá háskólanum í Maryland fyrir valda listræna leiðtoga og var sú fyrsta frá Norðurlöndunum til þess að vera boðin þátttaka. Steinunn hefur verið píanóleikari Fóstbræðra í meira en tvo áratugi og kemur að þessu sinni fram á vortónleikum í 22. Sinn. Glæsilegur listamaður á allan hátt.

Félag Fóstbræðrakvenna
Félag Fóstbræðrakvenna hefur starfað með formlegum hætti frá árinu 1968. Það ár var félaginu fyrst skipuð stjórn en sá áfangi átti sér svolitla forsögu. Segja má að félagið hafi orðið til þegar afmælishátíðahöld Fóstbræðra árið 1966 voru í undirbúningi. Þá var haldinn fjölmennur fundur eiginkvenna kórmanna sem fjallaði um hvaða afmælisgjöf konur ættu að færa kórnum.
Á þessum fundi var ákveðið að gefa kórnum afar vandaðan gullsaumaðan félagsfána allstóran og var Unnur Ólafsdóttir fengin til verksins. Á næstu árum stóðu eiginkonur fyrir tískusýningum og skemmtunum á Hótel Sögu til fjáröflunar fyrir húsbyggingu Fóstbræðra sem þá stóð yfir. Verður framlag þeirra til þess verks seint fullþakkað og ljóst að eiginkonur létu ekki eftir liggja skutinn þótt rösklega væri róið í framrúminu.
Hinn fallegi félagsfáni sem Unnur Ólafsdóttir saumaði var afhentur félaginu í vígsluhófi Fóstbræðraheimilisins 1971 og er hann varðveittur þar í sérstökum skáp en ávallt stillt fram á vortónleikum kórsins og önnur hátíðleg tækifæri.
Félag Fóstbræðrakvenna hélt áfram að leggja húsbyggingunni lið og gáfu marga húsmuni og innréttingar og þegar kórinn var 80 ára 1996 gaf Félag Fóstbræðrakvenna kórnum veglega peningagjöf sem rann til kaupa á nýjum söngpöllum.
Á síðustu árum hefur dregið úr formlegri virkni félagsins en þær standa þó dyggilega að baki maka sinna og aðstoða þegar þess er þörf.

Hrútafélagið
Hrútafélagið er félag Fóstbræðra sem hafa og fara makalausir í söngferðir á erlenda grundu.
Hrútafélagið varð til yfir miðjum Grænlandsjökli þegar kórinn var á leið til Vesturheims. Þá kom í ljós að nokkrir kórbræður voru konulausir og jafnvel alveg ógiftir og þótti stefna í óefni með þá eftirlitslausa og hálfósjálfbjarga á erlendri grundu. Því var það að Sýslumaður kórsins Þorleifur Pálsson fv. sýslumaður í Kópavogi og Þorgeir J. Andrésson sem varð varaforseti Hrútafélagsins síðar skrifuðu lög félagsins í 36.000 feta hæð. Vegna loftþynningar og stífrar tedrykkju týndust lögin og jafnvel er talið að þeim hafi verið fyrirkomið þar sem Hrútafélagið starfar ekki opinberlega. Forsetinn er t.d. með ónýtan síma, gamalt faxtæki sem ekki er í sambandi og póstkassinn er lokaður með hengilás. Hrútafélagið notar ekki kennitölur né nafnnúmer, gefur ekki út launaseðla en tekur við peningum og gjöfum (mútum) hvar og hvenær sem er. Hrútafélagið er ekki bókhaldsskylt og starfar neðanjarðar í skjóli leynilögreglumanns kórsins og annarra sem ekki verða frekar nafngreindir. Hrútafélgið er gegnspillt og rotið og Forsetinn er alvaldur, orð hans eru lög sem hann getur breytt þegar honum dettur í hug. Hrútafélagið heldur skemmtanir a.m.k einu sinni á ári og nefnast þær Hrútakvöld þar sem snyrtilegur klæðnaður er áskilin. Gjaldmiðill Hrútafélagsins er og verður íslenska krónan.
Hafa samband
Fóstbræður: fostbraedur@fostbraedur.is
Útfarasöngur: utfor@fostbraedur.is
Útleiga: salurinn@fostbraedur.is
Karlakórinn Fóstbræður, Langholtsvegi 109, 104 Reykjavík
Kt. 560169-0869 Banki. 0526-26-000968