Karlakórinn Fóstbræður

me

Saga Fóstbræðra

Karlakórinn Fóstbræður hefur starfað samfellt frá haustinu 1916, þó rekja megi starfsemi kórsins aftur til ársins 1911 þegar karlakór KFUM var stofnaður. Starfsemin lá þó niðri árið 1915 þar sem ekki fannst söngstjóri og höfum við í gegn um árin kosið að miða aldur kórsins við árið 1916. Fóstbræður er sá karlakór á Íslandi sem á lengstan samfelldan starfsaldur að baki.

Frá stofnun og til ársins 1937 hét kórinn Karlakór KFUM og starfaði fyrst og fremst innan vébanda þess félags. Árið 1937 losnuðu tengslin við móðurfélagið og þá þótti mönnum rétt að undirstrika það með nafnabreytingu. Nafnið Fóstbræður er sótt til kvartetts sem starfaði í upphafi aldarinnar en meðal söngmanna þar var Jón Halldórsson fyrsti söngstjóri Karlakórs KFUM, síðar Fóstbræðra.

Undir þessu nýja nafni óx kórinn og efldist og hefur ávallt lagt ríkan skref til mótunar og framþróunar karlakórssöngs á Íslandi og mun gera áfram.

Nánar má lesa um sögu og þróun kórsins í bókinni Fóstbræðralag eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson sem kom út 2001 og fjallar um sögu kórsins frá upphafi til loka tuttugustu aldar.

Tónleikahald

Hvert starfsár karlakórsins Fóstbræðra er í senn nýtt og gamalt. Nokkrir liðir hvers starfsárs eru fastir og ganga eftir þrautreyndu skipulagi til margra áratuga. Önnur verkefni eru ný og fersk og krefjast þess að kórinn takist á við tónlistina með opnum huga og sveigjanleika.

Dæmigert starfsár Fóstbræðra hefst snemma að hausti. Fastar æfingar eru hvert miðvikudagskvöld auk fyrsta mánudags í mánuði. Tíðni æfinga eykst ef fyrir liggja viðameiri verkefni. Varla líður sú vika að kórinn komi ekki fram við eitthvert tækifæri hvort sem það er brúðkaup, afmæli, jarðarför, opnanir, vígsluhátíðir eða einhver önnur opinber tækifæri. Samhliða slíkum verkefnum tekur kórinn þátt í tónleikahaldi með öðrum eða sinnir æfingum fyrir upptökur eða tónleika.

Aðventukvöld og þátttaka í tónlistarviðburðum sem tengjast jólum eru árviss hluti af verkefnum kórsins.

Seinni hluta vetrar einbeitir kórinn sér að æfingum fyrir venjubundna vortónleika sem er jafnan lokið í apríl og eftir það gæti undirbúningur fyrir utanför eða æfingar fyrir þátttöku í listahátíð eða tónlistarhátíðum verið á dagskrá.

Jón Halldórsson

Saga karlakórsins Fóstbræðra er samofin íslenskri tónlistarsögu. Rætur kórsins liggja í starfi KFUM og hins ötula foringja þess, séra Friðriks Friðrikssonar, enda var kórinn upphaflega kenndur við KFUM.

Jón Halldórsson fyrsti söngstjóri Fóstbræðra.

Þó að kórfélagið sé formlega stofnað í nóvember árið 1916 þegar Jón Halldórsson var ráðinn söngstjóri, þá hafði reglulegt kórstarf staðið allt frá árinu 1911. Starfsemi kórsins gjörbreyttist við ráðningu Jóns, og var nú stefnt að sjálfstæðu söngstarfi með reglulegum opinberum tónleikum fyrir bæjarbúa. Fyrstu tónleikarnir af þessu tagi voru haldnir í Bárubúð 25. mars 1917 og fyrsta lagið á efnisskránni var Skarphéðinn í brennunni eftir Helga Helgason við texta eftir Hannes Hafstein. Upphaf ljóðsins er "Buldi við brestur og brotnaði þekja", og sannarlega buldi við brestur í íslensku tónlistarlífi þegar karlakórahefðin festi rætur sínar í íslenskri menningu og vann sér um leið fastan sess í þjóðarsálinni. Árlegir tónleikar Karlakórs KFUM og síðar Fóstbræðra urðu þar með að litríkum þætti í tónlistarlífi borgarinnar. Kórinn skipaði sér fljótlega í fremstu röð söngfélaga í landinu og var því ekki síst að þakka markvissri og listrænni stjórn hins ötula söngstjóra, Jóns Halldórssonar, sem stjórnaði kórnum allt til ársins 1950 eða alls í 34 ár. Kórinn fór í sína fyrstu utanlandsferð árið 1926 til Noregs, með viðkomu í Færeyjum á heimleiðinni. Kórinn söng víða í Noregi við frábærar undirtektir. Þá tók kórinn þátt í móti blandaðra kóra í Kaupmannahöfn 1929, þar sem hann lagði til allar karlaraddirnar, undir stjórn Sigfúsar Einarssonar, tónskálds. Árið 1931 var kórinn svo aftur á ferð í Danmörku á norrænni sönghátið sem haldin var í tilefni 25 ára afmælis danska karlakórsins Bel Canto. Kórinn tók einnig þátt í hátiðarsöngnum á Alþingishátíðinni 1930 og söng sama ár inn á sína fyrstu hljómplötu og mun það vera fyrsta tónlistarupptaka hér á landi.

Fóstbræður tóku þátt í eftirminnilegri söngför Sambands íslenskra karlakóra til Norðurlanda 1946 þar sem flestir söngmanna voru úr röðum Fóstbræðra en nokkrir frá karlakórnum Geysi á Akureyri. Þar var söngstjóri ásamt Jóni Halldórssyni, Ingimundur Árnason, stjórnandi Geysis. Þar var og með í för ungur og efnilegur píanóleikari, sem átti eftir að gera garðinn frægan, Rögnvaldur Sigurjónsson að nafni.

Kórinn starfaði á sínum fyrstu árum í nánum tengslum við KFUM en á því varð þó breyting eftir því sem árin liðu m.a. vegna þess að öðrum en félögum í KFUM var leyft að taka þátt í söngstarfi kórsins. Þannig fjarlægðist kórinn KFUM smám saman og á árinu 1936 var nafni kórsins breytt í Fóstbræður þegar endanlega var slitið á tengsl kórsins við KFUM.

Fóstbræðraheimilið

Fóstbræðraheimilið að Langholtsvegi 109 var vígt 22. apríl árið 1972 og lagði fyrrverandi söngstjóri kórsins, Jón Halldórsson hornstein að húsinu. Í húsnæðisnefnd höfðu þá starfað árum saman þeir Þorsteinn R. Helgason, Magnús Guðmundsson frá Hvítárbakka og Ásgeir Hallsson.

Fjöldi kórmanna lagði á sig mikla vinnu við byggingu heimilisins allt frá því að lóðinni var úthlutað árið 1965 og með byggingu þess rættist áratuga gamall draumur félagsins um eigið athvarf og heimili. Kórinn hafði leigt æfingaaðstöðu á ýmsum stöðum í Reykjavík frá stofnun og komu margar sögufrægar byggingar í borginni við sögu í þeim efnum. Nægir að nefna hús KFUM við Amtmannsstíg, Miðbæjarbarnaskólann, Höfn við Ingólfsstræti, Varðarhúsið, Menntaskólann í Reykjavík, Sanitas við Lindargötu, Hljómskálann og Vonarstræti 4 þar sem kórinn átti lengi athvarf. Það var því sannkölluð hátíðastund þegar Fóstbræðraheimilið reis loks af grunni og þótt hér sé minnst á ósérhlífna kórfélaga má ekki gleyma framlagi Fóstbræðrakvenna sem létu alls ekki sitt eftir liggja í fjáröflun og sjálfboðavinnu.

Allar götur síðan hefur kórinn átt sitt heimili í húsinu. Þar er stór og góður æfingasalur með mjög vönduðum flygli. Þar er Jónsstofa sem hýsir muni og minjar úr merkri sögu kórsins, nefnd eftir Jóni Halldórssyni og þar hanga ómetanlegar teikningar snillingsins Halldórs Péturssonar af kórfélögum. Allt stuðlar þetta að því að skapa hlýlegt og virðulegt andrúmsloft sem er þrungið sögu og hefðum.

Hið upprunalega Fóstbræðraheimili hefur alla tíð verið leigt til veisluhalda og samkvæma af margvíslegu tagi enda aðstaðan góð.

Hafa samband