Skip to Content

Steinum Birna Ragnarsdóttir

Steinunn Birna

Steinunn Birna Ragnarsdóttir er fædd í Reykjavík og stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þaðan lauk hún píanókennaraprófi árið 1979 og einleikaraprófi tveimur árum síðar. Kennari hennar var Árni Kristjánsson. Steinunn lauk meistaragráðu frá New England Conservatory of Music í Boston, USA, árið 1987 undir handleiðslu Mr. Leonard Shure.Hún starfaði um tíma á Spáni sem einleikari og kom þar fram með ýmsum kammerhópum og hljómsveitum. Steinunn hefur hlotið ýmiss verðlaun fyrir leik sinn og komið fram á ýmsum alþjóðlegum tónlistarhátíðum. Hún hefur auk þess komið fram á tónleikum í Lettlandi, Þýskalandi, Englandi, Frakklandi, Færeyjum, Bandaríkjunum og í Litháen, þar sem hún kom hún fyrst fram sem einleikari ásamt "St. Christopher" hljómsveitinni á tónlistarhátíðinni "Alma Mater" í Vilnius en hefur komið þar fram reglulega síðan á St. Christopher tónlistarhátíðinni í Vilnius. Árið 2008 leik Steinunn einleik ásamt Virtuosi di Praga hljómsveitinni í Rudolpinum tónlistarsalnum í Prag. Hún hefur einnig komið fram hjá WGBH í þætti sem sendur var út um öll Bandaríkin og kynnti þar m.a. íslenska píanótónlist.Steinunn hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum hérlendis m.a. á vegum EPTA, Tónlistarfélagsins, Listahátíðar í Reykjavík, Kammermúsikklúbbsins og Styrktarfélagi íslensku óperunnar. Hún hefur komið fram sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og leikið m.a. píanókonsert eftir Grieg og "Sláttu" eftir Jórunni Viðar, en hvort tveggja hefur verið gefið út á geislaplötu með leik hennar. Hún hefur einnig leikið á mörgum geislaplötum þ.á.m. ásamt Bryndísi Höllu Gylfadóttur og árið 1998 hlaut plata þeirra "Ljóð án orða" Íslensku tónlistarverðlaunin. Árið 2008 kom út plata þeirra “Myndir á þili” tileinkuð Jóni Nordal tónskáldi. Steinunn hefur verið virk í félagsmálum tónlistarmanna og starfaði við dagskrárgerð hjá RÚV um árabil, þar sem hún gerði m.a. þætti um píanóleikara er nefndust "Þeir vísuðu veginn", en nú síðari árin var hún liðsstjóri í þættinum “Hvað er að heyra”. Hún var framkvæmdastjóri aldarafmælis Páls Ísólfssonar í Þjóðleikhúsinu árið 1993 og var fulltrúi Reykjavíkurborgar í Verkefnavalsnefnd Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 1998-2006 auk þess að sitja í Borgarstjórn Reykjavíkur frá 2002-2004.Steinunn Birna starfaði lengi við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskólann og stofnaði Reykholtshátíðina árið 1997 og var stjórnandi hennar þar til nú.

Steinunn Birna er tónlistarstjóri Hörpu, hins nýja og glæsilega tónlistarhúss okkar Íslendinga. Hún hefur verið píanóleikari Fóstbræðra undanfarin ár og verður áfram okkur Fóstbræðrum til mikillar gleði. Steinunn er ekki einungis afburða tónlistarmaður og listamaður heldur líka skemmtilegur og góður félagi og afar ljúf í allri umgengni. Fóstbræður hlakka til áframhaldandi samstarfs við Steinunni Birnu.

Share this