Skip to Content

Gamlir Fóstbræður

Gamlir Fóstbræður er kór eldri félaga, nokkurs konar lávarða- eða öldungadeild. Félagið var stofnað árið 1959 að frumkvæði Hreins Pálssonar sem þá hafði um nokkurt skeið haldið hugmynd að stofnun þess á lofti. Gamlir hafa allt frá stofnun staðið þétt að baki og við hlið starfandi kórsins og komið fram á öllum stærri hátíðarstundum Fóstbræðra með starfandi kórnum. Gamlir Fóstbræður æfa einu sinni í mánuði. Gamlir hafa haldið tónleika víðs vegar um landið á starfsferli sínum, auk þess að hafa árið 1994 farið söngferð til Írlands þar sem kórinn kom fram ásamt bræðrakór sínum, Gömlum Geysismönnum frá Akureyri, en sterkt bræðralag hefur ríkt milli Karlakórsins Geysis og Fóstbræðra alla tíð. Söngstjóri "Gamalla" frá stofnun og til ársins 1997 var Jón Þórarinsson tónskáld, en Jónas Ingimundarson hefur annast stjórn "Gamalla" síðan. Núverandi formaður Gamalla Fóstbræðra er Friðbjörn Hólm.

Gamlir Fóstbræður er nú vel sönghæfur kór, sem getur komið fram og sungið við hin margvíslegu tækifæri. Kórinn er bæði vettvangur þeirra sem eru hættir að syngja með starfandi kórnum, svo og hinna sem kjósa af ýmsum ástæðum að taka sér frí í skemmri eða lengri tíma frá starfi með starfandi kórnum en vilja vera í tengslum við Fóstbræður án of mikilla skuldbindinga.

Vetrarstarf Gamalla Fóstbræðra 2009-2010

Starfsemi Gamalla Fóstbræðra hefur verið lífleg í vetur. Æfingar hafa verið tíðar og vel sóttar og tókst samkomulag um að Árni Harðarson tæki að sér æfingar að mestu en eftir sem áður er Jónas Ingimundarson aðalstjórnandi Gamalla.Kórinn hefur sungið við nokkur tækifæri á dvalarheimilum aldraðra á höfuðborgarsvæðinu í vetur.Helgina 27. - 28. mars fóru Gamlir í ferð um Suðurland ásamt mökum sínum og stjórnanda, Jónasi Ingimundarsyni. Var Árna Harðarsyni og Karitas Ívarsdóttur boðið sérstaklega að vera með í þessari ferð sem þau þáðu með þökkum. Voru sungnir tónleikar að Hvoli á Hvolsvelli föstudaginn 27. mars og kom Auður Gunnarsdóttir, sópran, fram með kórnum af því tilefni. Auk þess komu fram Karlakór Rangæinga en tónleikarnir voru haldnir í samstarfi við þá. Húsfyllir var á þessum tónleikum og fjöldi aukalaga sunginn. Daginn eftir var fyrst farið niður að Voðmúlastöðum í Landeyjum en þaðan er Jónas Ingimundarson ættaður í báðar ættir. Þar byggðu frændur Jónasar sér sitt eigið Guðshús í byrjun fimmta áratugarins og tóku Gamlir lagið þar innandyra.Var þá haldið til Selfoss og sungið á dvalarheimili aldraðra þar í bæ. Að loknu kaffi og kruðeríi sem Gömlum var boðið upp á á Selfossi var haldið að Litla- Hrauni og sungið þar fyrir vistmenn og starfsmenn. Var það nokkuð sérstök upplifun. Að því loknu var ekið til Reykjavíkur. 21. apríl, tóku Gamlir þátt í söngskemmtun í Salnum. Var þar um að ræða kynningu á tónlist sem Jónas stendur fyrir reglulega með ýmsum listamönnum. Auk Gamalla komu þar fram Þóra Einarsdóttir sópran, ungur tenórsöngvari frá Grænlandi sem er hér við söngnám og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari. Var gerður góður rómur að söng Gamalla en salurinn var þéttsetinn

Gamlir Fóstbræður hafa nú lokið hefðbundnu vetrarstarfi sínu, en uppi eru hugmyndir að hefja starfið tímanlega næsta haust og hefur verið rætt um að fara í söngför til Ísafjarðar seinni hluta október. Þá hefur komið til tals að kórinn haldi til Kanaríeyja við tækifæri og taki að sér að skemmta gestum og gangandi þar um slóðir ef af verður. Þetta mál er enn á frumstigi.

Share this